Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:26]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil þakka honum líka fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd. Byrjum á því að standa á bremsunni eða stíga á kúplinguna. Mér fannst hv. þingmaður koma verulega vel inn á það í ljósi þess að í umsögnunum er jú kallað eftir töluvert meira fjármagni á flestum sviðum. Það vantar hér og vantar þar. Síðan erum við komin á þennan stað með frumvarpið sem við erum í dag. Jú, vissulega er verið að bæta við 54 milljörðum, 13,7 milljarðar eru vaxtabætur. Þá eru þetta rétt um 40 milljarðar sem er verið að bæta við. Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga hvar við erum að bæta þeim fjármunum við. Það eru nefnilega mörg málefnasvið sem eru ekki að fá neinar viðbætur, eins og ég kom inn í minni ræðu og það kalla ég líka að standa á bremsunni. Það er ákveðið aðhald þó svo að það sé verið að mæta bara lífsnauðsynlegu þörfum í kerfinu, t.d. eins og í heilbrigðiskerfinu þar sem hefur nú ekki verið vanþörf á, þar hefur verið kallað eftir auknu fjármagni. Einnig í félagsmálakerfinu, tryggingakerfinu, húsnæðismálunum. Ef ég reyni að svara spurningu hv. þingmanns, maður þarf líka stundum að klóra sér í höfðinu yfir ýmsum spurningum, þá tel ég að við höfum mætt þessu með því að standa á bremsunni og því miður var ekki hægt að uppfylla þarfir allra, það er bara þannig í þessu, og þetta eru aðhaldssöm fjárlög.