Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ágætu ræðu. Þetta eru velferðarfjárlög, segir hv. þingmaður. Hvernig stendur þá á því að barnabætur dragast saman að raunvirði í þessum fjárlögum? Ef þetta eru velferðarfjárlög hvernig stendur þá á því að gert er ráð fyrir að vaxtabætur til skuldsettra heimila haldi áfram að skerðast og að 2.800 heimili eru samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu núna að detta alveg út úr vaxtabótakerfinu? Hvernig stendur þá á því, ef þetta eru velferðarfjárlög, að forstjóri Sjúkratrygginga Íslands getur ekki lengur hugsað sér að gegna þessu embætti og vísar þar til vanfjármögnunar á þeim verkefnum sem stofnunin kemur að og vanfjármögnunar í heilbrigðiskerfinu? Er hún bara að misskilja eitthvað og heimilin sem sjá barnabætur sínar rýrna að raunvirði, sem eru að detta út úr vaxtabótakerfinu — er þetta allt bara einhver misskilningur, er fólk bara að misskilja þessa miklu velferðarsókn og þessi miklu velferðarfjárlög?