Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:39]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf nú að hlusta aftur á það sem ég sagði, en ég tel að ég hafi nú ekki boðið upp á breytingartillögur í því. Ég sagði að þetta væri ekki orðið að lögum, við skulum hafa það á hreinu, sem við erum að fjalla um. Ég bauð ekki upp í neinn sérstakan dans varðandi framhaldið, enda get ég ekki gert það upp á eigin spýtur, svo það sé nú sagt. Aftur á móti er verið að stórbæta í hluta sem snúa að heilbrigðiskerfinu, félagsþjónustunni og löggæslunni og þar af leiðandi leyfi ég mér að kalla þetta velferðarfrumvarp. En aftur á móti eru þættir eftir, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, þar sem við þurfum að grípa betur inn í. En það er einu sinni þannig að við erum í ákveðnu aðhaldi. Ríkissjóður er vissulega rekinn með 118 milljarða halla, gerum við ráð fyrir í því nefndaráliti sem við erum að fjalla um hérna, og við getum ekki tekið utan um alla hluti, því miður er það bara þannig, þótt við fegin vildum. Það sem við erum núna að fjalla um er ákveðinn grunnur sem við byggjum á og síðan verðum við að fara í ákveðna vinnu eftir áramótin sem kemur inn á fjármálaáætlun til að reyna að ná ákveðnu jafnvægi og taka utan um þá sem eftir sitja. Vissulega reynir á mjög víða með hárri verðbólgu og háu vaxtastigi o.s.frv. en lykilatriðið er að við byrjum einhvers staðar að taka utan um þessa þætti. Við leggjum af stað í ákveðið ferðalag. Síðan minni ég bara á það að Róm var ekki byggð á einum degi þegar menn ætluðu að fara af stað aftur.