Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta: „Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu en til þess þarf að sigrast á stórum áskorunum.“ Önnur tilvitnun sem ég endurtek hér: „Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.“ Önnur tilvitnun, þetta er allt á bls. 9 í stjórnarsáttmálanum: „Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.“ Og svo fjórða tilvitnunin: Ísland á að verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Fjórum sinnum ætlum við að vera fremst í heimi í orkuskiptum og þetta er í kaflanum sem heitir: Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang. Ég er ekki að sjá það og sérstaklega ef við stöndum hvorki við Kyoto- né Parísarsamninginn. Ég tel að við munum ekki standa við hann. Varðandi loftslagsvána þá er ljóst að langmest losun er frá orku og stórt hlutfall, um helmingur, frá vegasamgöngum. Það er verið að fjalla hérna um bílaleigubílana og eitthvað farið inn á þungaflutningabifreiðar líka sem sleppa tvöfalt meira en venjulegir bílar en þá er það tekið inn í fjárveitinguna út af bílaleigubílunum. Ég persónulega sé ekki að við munum standa okkur sem skyldi. Að sjálfsögðu þarf að hraða orkuskiptunum. Það var góður punktur sem hv. þingmaður kom með, varðandi það að þetta sé fyrst og fremst fyrir millistéttina, að hún geti fengið rafbíla en ekki fyrir fátækt fólk sem hefur ekki efni á að kaupa rafbíla, það fær ekki að taka þátt í orkuskiptunum. Þannig er nú það.

Ísland er lítið land. Við eigum að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar. Það er mjög mikilvægt. Ég tel það mjög miður að við munum ekki standa við Kyoto og ég tel að við munum ekki standa við Parísarsáttmálann. En ríkisstjórnin ætlar að vera fremst í heimi. Ég vil spyrja hv. þingmann um þennan mismun, hvað segir hann okkur um þessa loftkastala sem ríkisstjórnin er að búa til í stjórnarsáttmálanum og ætlar að vera fremst í heimi? (Forseti hringir.) Þessi orðræða um að vera fremst í heimi en geta ekki staðið við skuldbindingar. (Forseti hringir.) Önnur spurning. Eru það ekki bara Kína og Bandaríkin sem þurfa að koma að loftslagsmálunum? Það eru þau sem skipta máli á endanum.