Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður veltir því upp hvort það eigi að hafa tvöfalt umsagnarferli og það eru náttúrlega fordæmi fyrir því. Við eigum nokkur fordæmi fyrir því hér á þingi. Ég var t.d. í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem afgreiddi frumvarp til kosningalaga sem var breytt svo mikið að það var sent í lokað umsagnarferli til þeirra sem höfðu skilað inn umsögn upphaflega um frumvarpið til að sjá hvort sérfræðingarnir sem voru búnir að rýna það væru sáttir við þær breytingar sem nefndin var að gera, hvort þær stæðust það sem hafði verið kallað eftir. Svo var annað frumvarp, sem ég man ekki alveg hvaða nefnd var með, sem snerist um reglur varðandi lágmarksstærð sveitarfélaga. Þar átti sér stað samtal milli framsögumanns og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem leiddi til viðamikilla breytinga sem eðlilega voru sendar síðan öllum þeim sveitarfélögum, ég held bara öllum sveitarfélögum landsins, til að rýna og þeim umsagnaraðilum sem höfðu skilað inn umsögn áður. (Forseti hringir.) Ég held að það sé full ástæða til að skoða þetta varðandi fjárlög þegar það eru gerðar svona miklar breytingar, en það er dálítið erfitt þegar beðið er fram á aðventuna með að gera þær breytingar.