Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hvað hv. þingmaður er að fara. Mér finnst hann vera að nálgast þessa hluti svolítið fræðilega, við erum auðvitað bara með ákveðnar bókhaldsreglur þar sem er gert ráð fyrir tekjum og gjöldum. Ég notaði orðið tekjuöflunaraðgerðir yfir aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka gjöldin inni í þessari jöfnu. En eins og ég kom að hérna áðan þá held ég að það sé mjög mikilvægt í ríkisfjármálum og hagstjórn almennt að hafa það í huga að orð eins og tekjuöflun er hálfgerð myndlíking. Það er ekki þannig að það séu teknir einhverjir peningar einhvers staðar, þeir lendi í einhverjum kassa og þeim sé svo útdeilt. Veruleiki nútímahagkerfis er miklu flóknari en svo.