Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara nefna aftur að í þessu tiltekna nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem leiða af því er verið að setja fram mjög afmarkaðar tillögur um afmörkuð atriði. Þetta eru fjárlög núverandi ríkisstjórnar. Við teljum það ekki á okkar verksviði að smíða einhver ný fjárlög frá grunni og leysa öll þau vandamál sem uppi eru í opinbera kerfinu á hverju einasta málefnasviði. Ég lít ekki á það sem hlutverk stjórnarandstöðunnar hverju sinni og geri ekki slíkar kröfur til til annarra flokka í minni hluta og mun ekki gera slíkar kröfur til þeirra flokka sem núna eru í ríkisstjórn og verða kannski einhvern tímann seinna í minni hluta þegar þar að kemur. Það getur vel verið að það séu gerðar athugasemdir og hnýtt í ýmislegt í þessu nefndaráliti án þess að það sé sett fram konkret heildarlausn á þeim málum. Mér finnst það bara eðlilegt og það tíðkast nú í nefndarálitum sem þessum þannig að ég furða mig aðeins á þessari nálgun hv. þingmanns.