Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gleyma að minnast á að sú sem situr á forsetastóli í dag var varaformaður þessarar merku fjárlaganefndar á þeim tíma. En ég held að ég verði líka að rifja upp að þegar við gerðum upp fjárlög síðasta árs, sem voru samþykkt með verulegum halla, þá var heildarniðurstaðan mun jákvæðari en við gerðum þar ráð fyrir. Ég hef væntingar um það líka að þessu sinni. Ég held að við verðum líka að greina hvaða útgjöld við erum að ráðast í. Að hluta til erum við að klára að hreinsa út úr kerfunum kostnaðinn vegna Covid. Við erum að bæta til heilbrigðismála og lögreglu. Er það endilega þensluhvetjandi aðgerð að auka mönnun í lögreglu? Jú, þetta hefur haft áhrif í stóru myndinni en ég held að í aðalatriðum séum við að takast á við ákveðinn grunnkerfisvanda sem löngu var orðið tímabært að taka á. Síðan eru veruleg útgjöld vegna verðbólgunnar sem slíkrar, sem er vandamál og við horfum kannski á hana slíkum augum í útgjöldum ríkissjóðs, sem aukinn vaxtakostnað.

Hv. þingmaður nefnir tvö atriði til viðbótar sem mig langar að drepa niður fæti í. Annars vegar nefnir hann liðskipti, ein af þeim hagræðingarhugmyndum sem við höfum er að leita frekar út fyrir opinbera kerfið. Þá vil ég bara ítreka orð hæstv. heilbrigðisráðherra í þeim efnum og mjög skýr skilaboð í hans máli og áætlun hans um nýtingu á þeim fjármunum sem þar eru lagðir til, að þar á í auknum mæli að leita út fyrir hið opinbera kerfi. Seinna atriðið í mínu seinna andsvari um þetta vinnulag, reynsluna af opinberum fjármálum — já, ég held að það sé tímabært að við tökum það til endurskoðunar. Ég gerði að sérstöku umtalsefni hér í gær eftirlitshlutverk þingsins og hvernig við höfum misst þráðinn í þeim efnum og þurfum að móta verklag í þeim efnum. Í öðru lagi, er nokkuð óeðlilegt þó að stærstur hluti tillagna komi frá fjármálaráðherra? Það er verið að vinna með sömu umsagnir og nefndin (Forseti hringir.) og strauma og stefnur í þeim efnum. Að lokum bara þetta: Ég nefndi sérstaklega í minni framsöguræðu í gær, (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður missti af en ég vil skilja hér eftir: Það voru sannarlega veikleikar í áætlanagerð (Forseti hringir.) við undirbúning frumvarpsins.