Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:12]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir síðara andsvarið. Varðandi þessar beiðnir, ef við byrjum þar. Nú hefur hann verið töluvert lengur en ég í fjárlaganefnd Alþingis, en í tvennum fjárlögum hef ég tekið þátt og í bæði skiptin hefur það verið gert með sama hætti og núna, þannig að það er það verklag sem sá sem hér stendur kannast við. Ég tek hins vegar algerlega undir það með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að hvaða verklag sem viðhaft er sé gegnsætt og það sé algjörlega uppi á borðum þannig að allir standi jafnfætis gagnvart slíku. Það finnst mér vera stóra málið og mér finnst ekkert óeðlilegt við það að þingið sjálft hafi eitthvað um það að segja í hvað fjárveitingarnar fara, þingnefnd, fjárlaganefndin. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að fjárlaganefnd Alþingis ráðstafi einhverju fé í verkefni sem hún telur að séu mikilvæg. Ég veit alla vega að einhverjir hér í þessum þingsal hafa gagnrýnt það að Alþingi komi allt of lítið að þessum ákvörðunum og þetta sé hálfgert ráðherraræði hér, þannig að mér finnst þetta ekki óeðlilegt.

Varðandi innspýtingu inn í heilbrigðiskerfið eða ekki þá held ég að ég og þingmaðurinn verðum bara að vera ósammála um það. Ég geri mér hins vegar algjörlega grein fyrir því að sumt af þessu er leiðrétting en annað er klárlega innspýting. Það að setja 12,2 milljarða inn í heilbrigðiskerfið á milli umræðna, rúma 17 milljarða á milli áætlana — ég get ekki talað öðruvísi um það en að verið sé að gefa verulega í og það sé veruleg innspýting inn í heilbrigðiskerfið. (BLG: Nefndarálitið mitt.)