Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ríkisfjármálin verða áhugaverð. Það sem hv. þingmaður taldi upp var alveg hárrétt; málefni fatlaðra, Íslandsbanki, ÍL-sjóður, LSR. ÍL-sjóður er upp á 450 milljarða, heildarskuldbindingin. Lífeyrisaukasjóður LSR er 14 milljarðar. Ég tel að íslenska ríkið — ég meina, við erum að tala um svolítið flókið klúður hjá Íslandsbankasölunni. Fjármálaráðherra seldi föður sínum þannig að það var ekki gerð áreiðanleikakönnun á fyrirtækjum sem voru að kaupa, við vissum ekki hver raunverulegur eigandi var og annað slíkt. Framkvæmdin alveg út í hött.

Mér detta stundum í hug orð Halldórs Laxness þar sem segir, að ég held í Innansveitarkroniku: Þetta fer allt einhvern veginn. Þetta fer allt saman einhvern veginn á Íslandi. Það er það sem er. Það sem hann á við þar er að það vantar festu og aga. Þetta reddast alltaf, allt reddast. Ég tel að það sé hlutverk okkar í fjárlaganefnd, og ég vona að það verði samstaða um það, að við förum fram á aga. Við krefjumst aga. Við krefjumst þess af fjármálaráðuneytinu að það undirbúi sig betur. Það er ekki pólitískt mál. Og að við fáum líka betri upplýsingar. Ef það kemur breytingartillaga upp á 2 milljarða í rekstrargrunn Landspítalans, í hvað eiga þessir 2 milljarðar að fara? Hvað er verið að gera þarna? Það komu 750 millj. kr. í liðskiptaaðgerðir. Ég vil fá að vita hversu marga liðskiptaaðgerðir þetta eru, hvaða tegundir af aðgerðum þetta eru, hverjir eiga að gera þetta. Ég vil fá greiningu alveg niður þegar ríkið er að reiða fjármunina af hendi. Það vantar og það eigum við að geta gert á upplýsingaöld. Það er ekki mikið mál. Það var ekki mikið mál við söluna Íslandsbanka að tryggja það að allir gættu að hæfi fjármálaráðherra, sama hver fjármálaráðherrann var. Söluaðilinn átti bara að vita það. Þeir áttu líka að vita hver raunverulegur eigandi lögaðilanna var. Það er ekkert mikið mál, það þarf bara að skrifa það niður á blað hver er raunveruleg eigandi. Það er ekki flókið. Það þarf að gera það og það er þetta sem við ættum öll að sameinast um, sama hvar í flokki við erum.