Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að þetta verði bara vesen í framtíðinni ef við gerum ekkert í þessu. Varðandi réttindi fatlaðra þá eru það stjórnarskrárbundin réttindi sem þeir eiga. Fatlaðir eiga rétt á aðstoð samkvæmt stjórnarskrá. Þeir eiga rétt vegna örorku sinnar. Þeir eiga rétt á því að fá aðstoð og þeir eiga rétt á því að falla ekki í örbirgð, falla ekki í fátæktargildru. Það eru útgjöld sem eiga að vera sjálfsögð útgjöld ríkissjóðs. Ísland er ríkt samfélag. Þetta er spurning um hvernig við ætlum að haga útgjöldum okkar ef við ætlum ekki að setja þau í þennan málaflokk, hjálpa fátækum, hjálpa öryrkjum, hjálpa öldruðum og reka alvöru gott hátæknisjúkrahús án þess að í hverri einustu viku séu fréttir varðandi bráðamóttökuna og að rekstur Landspítalans sé ekki nógu öflugur. Ég held að þetta sé verkefni okkar í fjárlaganefnd. Ég held líka að næst þegar það kemur greinargerð til okkar í fjárlaganefnd þá eigum við að rýna hana vel, setja mikla vinnu í það að tryggja að þetta verði gert, a.m.k. að við gerum okkar hlut algjörlega og við munum ganga eftir því að það verði agi í framkvæmdinni. (Gripið fram í.)