Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[04:44]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er að pæla í að gera eins og kollegi minn hér, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson og skipta þessu upp í málefnasvið. (Gripið fram í.) Ha? Já, afsakið, forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (JSkúl): Forseti áminnir hv. þingmenn um að vera ekki í frammíköllum úr sal. )

Ég ætla að tala um fasteignamat og tengsl fasteignamats við fjárlögin. Eins og ég vék að í fyrstu ræðu minni hér um fjárlögin — forseti, ég held að það sé eitthvað að klukkunni, ég sé ekki hvað það er langur tími eftir. Ég er svo sem ekki í neinu stressi. En ég sé ekki neins staðar í fjárlögum að ríkisstjórnin sé að boða einhverjar stórtækar aðgerðir til að sporna við þeirri þróun sem hefur verið eiga sér stað á húsnæðismarkaði. Eins og ég sagði í ræðu minni hér fyrr í dag þá verður erfiðara að safna sér fyrir fyrstu útborgun og dvölin á leigumarkaði þar sem leigan hækkar með hverju nýju fasteignamati lengist og lengist.

Virðulegi forseti. Nú verð ég bara að taka fram að ég fagna því mjög að stjórnarliðar séu komnir hér í hliðarsal. (Gripið fram í: Þegar þú sagðir fasteignamat þá hljóp ég upp.) Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að koma hingað og hvet þau til að taka þátt í þessari umræðu, þessari mikilvægu umræðu sem er að eiga sér stað um fjárlögin fyrir árið 2023.

Forseti. Varðandi fasteignamatið þá skulum við fyrst skoða grundvöll skattlagningar og tilgangs þess. Fasteignamat er notað sem stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir hér á landi, samanber 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1994. Það er hægt að leggja álagningu erfðafjárskatts til grundvallar, skattframtal, stimpilgjald og fráveitu- og vatnsgjöld, það er alls konar fróðlegt til í þessu. Það ber að skrá allar fasteignir og réttindi yfir þeim. Meginregluna má finna í 2. gr. laga nr. 4/1995, en hún er sú að hverja fasteign skuli meta til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma. Það eru ákveðnar eignir undanþegnar, samanber 26. gr. laganna. Eins og er í öllum góðum lagabálkum eru alltaf einhverjar undanþágur. Það er aldrei hægt að nota orðin „aldrei“ og „alltaf“. Svo er sérákvæði í 7. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga, samanber dóm Hæstaréttar þar sem Hæstiréttur lagði til grundvallar að aðskilin vatnsréttindi eigi að lúta sömu reglum og fasteignir almennt. Fordæmisgefandi dómur og mjög mikilvægur þegar kemur að því að skoða fasteignamat í samhengi við fjárlögin fyrir árið 2033.

Fasteignamat hefur bara farið hækkandi á síðustu árum sem leiðir til hærra verðs á leigumarkaði og þar af leiðandi kemst fólk ekki af leigumarkaðnum til að kaupa sér fasteign. Vandamálið er að það eru einfaldlega ekki nógu margar íbúðir til, það er ekki nógu mikið framboð en það er ótrúlega mikil eftirspurn, þetta er bara hagfræði 101. En varðandi mat og matsaðferðir þá er fasteignamat gangverð, umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimili og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð. Þetta má finna í 1. mgr. 27. gr. laga um skráningu og mat fasteigna og svo eru auðvitað sjónarmið sem er komið á framfæri í 2. mgr. 27. gr. og 28. gr.

Eins og við vitum öll þá tekur fasteignamat breytingum ár hvert, samanber 32. gr. a laga um skráningu og mat fasteigna. Við sáum þetta náttúrlega í ár. Það var töluvert stökk á fasteignamatinu. Sumir tóku því sem fagnaðarefni en sumt fólk ekki því staðan er erfið og alvarleg fyrir heimili landsins þegar kemur að fasteignum. Ungt fólk sem er t.d. í námi og er að vinna með skóla nær bara að vinna sér inn nóg til að framfleyta sér í einn mánuð og eins og við vitum öll, með þessari verðbólgu, þá er bara rosalega erfitt að lifa. Ég fer út úr húsi og ég er allt í einu búin að eyða 10.000 kr. og ég veit ekki í hvað. En svona er þetta bara. Ég vona að ríkisstjórnin sé að fara að grípa til einhverra stórtækra aðgerða á komandi mánuðum til þess að sporna við þessari þróun sem er að eiga sér stað á fasteignamarkaðnum, forseti, því að þetta er grafalvarleg staða og það er bara fullt af ungu fólki og meira að segja fólki sem býr við bág kjör, ekki bara ungt fólk heldur fólk sem hefur ekki keypt sér fasteign hingað til, sem sér ekki fram á að geta gert það miðað við hvernig núverandi þróun er. Eins og ég kom inn á í fyrstu ræðu minni í dag, forseti, þá eru stýrivaxtahækkanir Seðlabankans heldur ekkert að gera neitt gagn fyrir þau sem hafa efni á því að kaupa sér fasteign. Ég meina, staðan er erfið á báðum hliðum, bæði fyrir þau sem eiga fasteign og fyrir þau sem vilja komast á fasteignamarkaðinn og eignast sitt eigið húsnæði. Hver hefði haldið að þetta yrði þróunin, forseti? Ekki ég. Við sáum náttúrlega ekki heimsfaraldurinn fyrir og við sáum heldur ekki fyrir þessa atburði sem hafa átt sér stað í ár, eins og stríðið í Úkraínu eða árás Rússa á Úkraínu, þetta er ekki stríð í Úkraínu, þetta er ólögleg árás sem fer þvert á við alþjóðlegar skuldbindingar Rússlands. En auðvitað er ekki til eitt svar við því hvernig við náum tökum á verðbólgu eins og að sleppa því að hækka stýrivexti. Auðvitað þurfum við að gera það sem við getum til þess að ná tökum á verðbólgunni og þessari þróun sem er að eiga sér stað á markaðnum. En ég verð samt að segja að ég er innilega ósammála aðila sem segir að neysla fólks hér á Íslandi, vinnandi fólks, sé vandamálið og að utanlandsferðir sem fólk fer í kannski einu sinni á ári séu vandamálið og ýti undir þessa verðbólgu sem við höfum verið að sjá hér undanfarið. Þetta er náttúrlega bara útúrsnúningur og ábyrgðin er færð yfir á vinnandi fólk sem ég kann ekki að meta, talandi sem manneskja sem er í mjög mikilli forréttindastöðu, enda stend ég hér í ræðupúlti Alþingis sem er alls ekki sjálfsagt.

Forseti. Ég sé að tíminn er á þrotum þannig að ég ætla að klára grunnatriðin varðandi fasteignamatið. Þjóðskrá er með nokkrar matsaðferðir til að meta fasteignamatið og þær eru þrjár. Það er tekjuaðferð — höfum í huga að þetta eru allt rosalega lík orð fyrir mig, ég er löglærð manneskja en mér finnst þetta allt vera rosalega líkt einhvern veginn en kannski fyrir einhvern viðskiptafræðing eða hagfræðing er þarna himinn og haf á milli. En þessar þrjár aðferðir eru markaðsaðferð, kostnaðaraðferð og tekjuaðferð. Þetta var lagt til grundvallar í hæstaréttardómi sem féll hér um árið sem varðaði Hörpu, tónlistarhús. En ég sé að tíminn er á þrotum þannig að ég næ því miður ekki að reifa þennan dóm að þessu sinni. En ég er ekki búin, forseti, þannig að það má endilega bæta mér aftur á mælendaskrá.