Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

umræða um skýrslu fjármálaráðherra um ÍL-sjóð.

[11:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir hvert einasta orð sem hraut af vörum hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Það er eiginlega með ólíkindum að koma hér sem hæstv. ráðherra og fussa yfir umræðu vegna þess að ekki sé komið fram þingmál þegar hæstv. ráðherra boðaði sjálfur til blaðamannafundar. Hæstv. ráðherra skilaði Alþingi skýrslu með hugmyndum sínum um það hvernig leysa mætti þetta allsherjarklúður í boði Sjálfstæðisflokksins og hans stjórnarhátta undanfarin ár og áratugi og hæstv. ráðherra ætlast til þess að við ætlum ekki að ræða málin hér af því að hann sé ekki tilbúinn með þingmál til framlagningar um leiðina. Ég held að við hljótum að gera þá kröfu að hæstv. ráðherra óski eftir að umræða um skýrsluna haldi áfram. Við þurfum að fá botn í málið, við þurfum að komast eitthvað áleiðis með þetta af því að þetta er tjón sem mun bitna á almenningi í landinu, sem við erum jú að vinna fyrir.