Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að staðan sé sú að ráðherrar gangi út frá því að heilbrigðisstarfsfólks sé drifið áfram af slíkri ástríðu að það láti nánast hvað sem er yfir sig ganga. Ég held að það fyrra sé að einhverju leyti rétt af því það er ótrúlega mikil ástríða sem felst í þessu starfi og það er einhver brennandi löngun til að láta fólki líða betur og lækna og maður finnur það af samtölum við heilbrigðisstarfsfólk. En það er líka svo magnað að tala við fólk sem starfar um allt kerfið, þau hafa mörg hver mjög skýrar hugmyndir um hvernig megi bæta hlutina. Þegar ég var í hv. velferðarnefnd fórum við í það verkefni að kortleggja heilbrigðiskerfið og það var býsna fróðlegt ferli. Við gerðum þetta í upphafi árs 2020 vitandi ekki hvað væri í vændum, að við værum á leiðinni inn í heimsfaraldur. En þá sá maður svo áberandi skallabletti um kerfið, heilbrigðiskerfið, hvar ekki væri verið að nýta bæði mannauð og fermetra, hvar hægt væri að gera betur með ákveðinni heildaryfirsýn. Ég verð að segja að ég bar nokkrar væntingar til núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, að hann færi kannski með kaldan haus inn í þetta verkefni. Það eru nokkur vonbrigði, a.m.k. enn um sinn, af því að ég sé ekki að hann sé einhvern veginn þar, að reyna að búa svo um hnútana að við nýtum mannauðinn betur, (Forseti hringir.) að við berum meiri virðingu fyrir þeim og nýtum þær stofnanir sem við höfum betur. Ég held að þar liggi ákveðin skammsýni.