Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er auðvitað ótækt að gögn og greiningar um húsnæðismarkaðinn eru oft svolítið sitt á hvað. Ég held samt engu að síður að sveitarfélögin hafi verið býsna skýr þegar kemur að því að það strandi ekki á lóðaveitingum hjá þeim. Það hefur vissulega komið upp sú staða sem verður að viðurkenna, það var vandinn við að koma hluta af stofnframlögunum út í fyrra en það voru ýmsar praktískar ástæður líka fyrir því og það lá alveg fyrir að það var hægt að koma með öðrum hætti að veitingu slíkra stofnframlaga, til að mynda með aðkomu að styrkjum eða lánveitingum til innviðauppbyggingar til þess að rýmka getu sveitarfélaganna til að taka þátt í slíku. Mér finnst það oft vera þannig að hæstv. ríkisstjórn er einhvern veginn að kasta boltanum allt of snemma frá sér þegar hún segir að það sé einfaldlega ekki hægt að byggja í landinu. Mig langar líka til að hafa orð á því sem ég fjallaði aðeins um í nefndaráliti mínu um þetta fjárlagafrumvarp: Hver ber ábyrgð á því ef það er ekki hægt að byggja hér á landi? Hver ber ábyrgð á því ef það er búið að hringla það mikið við innviðauppbyggingu og húsnæðisuppbyggingu í landinu að það fæst ekki fólk til að vinna við þetta, vinnuvélarnar eru ekki til staðar, það er ekki geta í kerfinu? Auðvitað er það hæstv. ríkisstjórn. Ef við værum að tala um nýja ríkisstjórn sem væri nýtekin við væri þessi afsökun gild. En við erum í rauninni búin að vera með sömu stjórnarflokka núna í að verða áratug. Við erum með Sjálfstæðisflokkinn sem búinn er að vera í fjármálaráðuneytinu í 27 af síðustu 30 árum. Það liggur alveg fyrir að þeir sem halda utan um umgjörð samfélagsins bera líka ábyrgð á því að það er búið að hringla það mikið með innviðauppbyggingu hér á landi að það gengur líka illa að koma framleiðslutækjum af stað. Ég hef ekki enn þá séð nein úrræði frá hæstv. ríkisstjórn til að bæta þessa byggingargetu í samfélaginu þannig að þessi ábyrgð er að öllu leyti þeirra.