Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa líka þrusuræðu um kirkjujarðasamkomulagið. Ég áttaði mig á því akkúrat þá hvað ég saknaði þess að vera í fjárlaganefnd með hv. þingmanni, sem var algerlega óþreytandi við að reyna að afla okkur frekari þekkingar á þessum málaflokki. Hvað sem um það má segja þá lít ég nú enn þá á 62. gr. stjórnarskrárinnar okkar sem segir í rauninni að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja og ríkisvaldið skuli virða hana og vernda. Síðan segir í 2. mgr. að það sé löggjafans hér að breyta því ef verða vill. En ég verð að viðurkenna það, hv. þingmaður, að ég náði aldrei almennilega upp í þetta kirkjujarðasamkomulag. Þetta var of snúið og flókið fyrir mig, enda vorum við alltaf að fá svörin í svo litlum skömmtum í einu að ég náði aldrei þeirri heildstæðu mynd sem ég efast ekki um að hv. þingmaður er gjörsamlega kominn með rétta.

Þar sem ég heyrði svör hv. þingmanns við andsvörum samflokksmanns míns, hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar hér rétt á undan, þá tók ég eftir því að hv. þingmaður bendir á bágindi víðast hvar annars staðar heldur en hjá þeim þjóðfélagshópi sem við erum að berjast fyrir að fái desemberuppbót akkúrat núna. Þetta er náttúrlega sá hópur sem hefur ekkert val. Þetta er sá hópur sem hefur ýmist verið með skerta eða enga starfsgetu og hefur enga möguleika á að hjálpa sér sjálfur. Flokkur fólksins hefur mælt fyrir frumvarpi um 400.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Hvernig hugnast hv. þingmanni það frábæra frumvarp, sem mér finnst það vera eðli málsins samkvæmt?