Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir svarið. Mér fannst hún koma inn á mjög góðan punkt undir lok svars síns þar sem hún talaði um forréttindi. Stjórnarskráin talar ekki um forréttindi heldur rétt allra til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Það segir þarna líka „við sitt hæfi“. Það virðist vera að stjórnvöld hafi litið á það sem eins konar forréttindi að fá námslán sem eru greidd til baka. Ég hef verið að greiða af námslánum mínum, það hefur tekið langan tíma og það munar um þetta. Ég er búinn að greiða af mínum námslánum en það voru ráðstöfunarlaun eins mánaðar sem fóru í það þannig að þetta eru ekki forréttindi þó svo að stjórnvöld virðist líta á það þannig. Frumvarp okkar er um að við skulum miða við að framfærslulán nægi námsmanni til að standa straum af almennri framfærslu án tillits til launatekna og mér finnst það bara sjálfsagður hlutur. Annað atriði sem hv. þingmaður minntist á í andsvari sínu við hv. þm. Ingu Sæland var 40% niðurfellingin, ef þú klárar nám á réttum tíma þá færðu 40% niðurfellingu á námslánum. Svo getur vel verið að þú verðir óvænt veikur, það gerist eitthvað óvænt í lífi þínu, það deyr nákominn fjölskyldumeðlimur og þú getur ekki klárað. Ég veit ekki til að það sé tekið tillit til þessa. Það væri gott að heyra ef hv. þingmaður veit hvort þetta er mjög ströng regla. Annað atriði sem mig langar að spyrja hana um er hvort það væri ekki rétt að hafa þetta eins og í Danmörku, að það væri líka styrkur til stúdenta eins og í Danmörku, eins og SU í Danmörku. Námsmenn eiga þar rétt á styrk sem þeir þurfa ekki að greiða til baka þar sem ríkisvaldið þar lítur á menntun sem fjárfestingu, hvetur fólk til að fara og mennta sig. Það þarf ekki að greiða þetta til baka. (Forseti hringir.) Ættum við ekki að taka upp svipað kerfi og hætta að líta á þetta sem forréttindi, (Forseti hringir.) a.m.k. ekki að skerða námslán ef fólk vinnur sér inn launatekjur?