Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar. Ég held að við séum alveg sammála. Jú, það mun kosta eitthvað að fara í aðgerðir í loftslagsmálum en það mun kosta svo miklu meira ef við gerum ekki neitt, svo að við tölum ekki um það hvernig við skiljum jörðina eftir fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Mig langaði að taka eitt dæmi sem hv. þingmaður notaði í ræðu sinni og það eru rafmagnsbílar. Nú er það þannig að við höfum verið með þann hvata að niðurgreiða virðisauka og annað á rafmagnsbílum. Það hefur gert það að verkum að það eru komnir rúmlega 20.000 bílar á göturnar sem eru rafmagnsbílar. En við skulum ekki gleyma því að hér á götunni eru um 250.000 bílar. Við erum bara rétt að byrja.

Eins og hv. þingmaður benti á þá er mjög erfitt fyrir þá tekjulægri að nýta sér þennan hvata og að nýta sér það að vera hluti af orkuskiptunum. Þá spyr ég hv. þingmann: Væri ekki nærri lagi að við notuðum peningana sem við erum að nota í niðurgreiðslur þarna á aðeins skilvirkari hátt, t.d. með því að niðurgreiða aðeins meira fyrir þá tekjulægri? Í öðru lagi að niðurgreiða ekki þegar fólk er að kaupa rafmagnsbíl númer tvö eða þrjú eða þegar fólk kaupir rafmagnsbíl sem er Porsche-jeppi á tugi milljóna. Er ekki betra að við séum þá í að niðurgreiða meira til þeirra sem minnst hafa milli handanna?