Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að fara aðeins yfir viðeigandi stjórnarskrárákvæði varðandi fjárlögin, það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir. Með leyfi forseta, þá segir í 42. gr. stjórnarskrárinnar:

„Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.“

Þetta er eina skylda Alþingis er lýtur að löggjafarstarfi sem kveðið er á um í stjórnarskránni. Þetta er eina frumvarpið sem Alþingi Íslendinga verður að samþykkja á hverju ári. Ef Alþingi Íslendinga setti bara fjárlög og engin önnur lög væri það að uppfylla stjórnskipulega skyldu sína, svo að það liggi fyrir. Því eru þetta mikilvægustu lögin og við erum að uppfylla stjórnskipulega skyldu okkar að fjalla hér um þetta fjárlagafrumvarp, taka það til umræðu og klára 2. umr.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Hvað þýðir þessi grein? Hún þýðir það sem felst í orðanna hljóðan: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Þessi grein þýðir að fjárlögin eru ofar öðrum lögum. Hún hefur verið notuð með þeim hætti, t.d. varðandi 69. gr. laga um almannatryggingar þar sem segir að greiðslur almannatrygginga skuli árlega taka breytingum til samræmis við launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag. Almannatryggingar eiga því annaðhvort að fylgja launaþróun eða verðlagi og fylgja því sem er hærra. Ef launaþróun fylgir ekki verðlagi þá skulu almannatryggingabætur fylgja verðlagi, þ.e. ef launaþróun felur í sér lægri bætur en verðlag.

Undanfarinn áratug og lengur hafa stjórnvöld virt 69. gr. að vettugi. Ef litið er til baka má sjá að munurinn á þróun launavísitölu og þróun fjárhæða almannatrygginga er tugir prósenta. Þetta er sú kjaragliðnun sem Flokkur fólksins hefur barist gegn allt frá stofnun, barist fyrir því að 69. gr. sé virt. Hún er aldrei virt í fjárlögum og hefur ekki verið virt undanfarin ár í fjárlögum, með vísan til 45. gr.

Flokkur fólksins er með breytingartillögu og það kom til umræðu í gær, í umræðum um fjárlög, að sú breytingartillaga stæðist ekki. Hv. formaður fjárlaganefndar benti á það. Breytingartillaga Flokks fólksins laut að Ríkisútvarpinu, þar sem lagt er til að framlag til RÚV lækki um 290 milljónir og þess í stað hækki framlög til Kvikmyndasjóðs um sömu fjárhæð. Við hækkun útvarpsgjalds vegna verðlagsbreytinga um 7,7% milli ára mun framlag ríkisins til RÚV hækka um 290 milljónir. RÚV fær sjálfkrafa hækkanir sem byggja á því að ef verðbólga er upp á 7,7% þá hækkar nefskattur sem rennur beint til RÚV, líka fer þetta eftir íbúafjölda í landinu sem hækkar sömuleiðis framlög til RÚV. 69. gr. laga um almannatryggingar er ekki bundin þessum skilyrðum. Ríkisútvarpinu eru tryggðar tekjur miðað við íbúafjölda og verðlag en almannatryggingabætur hækka ekki eins og þær eiga að gera. Því var haldið fram í gær að breytingartillaga þessi hjá Flokki fólksins stæðist ekki lög. Að sjálfsögðu gerir hún það. Hún gerir það með vísan til 41. gr. stjórnarskrárinnar, um að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Alþingi Íslendinga gæti, í fjárlögum, ákveðið að Ríkisútvarpið fengi ekki krónu. Einhver gæti risið upp og sagt að við værum að brjóta lög um Ríkisútvarpið en ég myndi segja að við værum ekki að gera það. Ég þarf ekkert að segja það, við erum ekki að gera það með vísan til 41. gr. stjórnarskrárinnar, svo það liggi fyrir. Sama hefur verið gert gagnvart örorku- og ellilífeyrisþegum í landinu varðandi þau réttindi sem þeim eru tryggð í 69. gr. laga um almannatryggingar.

Varðandi 76. gr. stjórnarskrárinnar, sem hv. þm. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fór yfir á mjög góðan hátt, þá er líka réttindabarátta þar. Þar eru veitt réttindi, eins og komið hefur fram. Það eru réttindi sem fela í sér að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar, þ.e. fátæktar, og sambærilegra atvika. Þessi regla er mjög mikilvæg og er ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um félagslega aðstoð. Þetta er bara 1. mgr.; 2. mgr. fjallar um rétt til almennrar menntunar og 3. mgr. um börn, að þeim skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Reglan í 1. mgr. felur í sér að gengið er nánar út frá því að reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum en með ákvæðinu er markaður sá rammi að til þess þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð. Flokkur fólksins er ítrekað búinn að benda á að þær reglur hafa ekki tryggt þessa aðstoð nægjanlega, þessa félagslegu aðstoð sem ákvæði stjórnarskrárinnar, æðstu laga Íslands, tryggir. Það er stóra málið. Við erum ekki að tryggja það í fjárlögum að 76. gr. sé uppfyllt, svo það liggi fyrir. Því er þetta hrein og klár réttindabarátta sem er grundvölluð í stjórnarskrá Íslands. Þetta eru mjög mikilvæg réttindi fyrir samfélagið og myndi það bæta íslenskt samfélag til muna að tekið væri tillit til þessa hóps.

Annað atriði sem lýtur að þessum réttindum snýst um skerðingarnar sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir að verði afnumdar, sem er mjög mikilvægt. Skerðingarnar koma ekki einungis í veg fyrir að réttindum 76. gr. verði náð heldur erum við líka að takmarka atvinnufrelsi þessa hóps. Atvinnuréttindi öryrkja og ellilífeyrisþega sem vilja vinna og leita sjálfsbjargar eru skert með því að þeim eru settar skorður með lögum, vegna þess að þegar þeir fara út á vinnumarkað eru almannatryggingar þeirra skornar niður.

Varðandi ákveðna hópa sem líka eru hér undir, þá er það alveg klárt mál að verið er að skerða atvinnutekjur frá fyrstu krónu. Frítekjumark atvinnutekna gildir ekki. Hækkunin sem á að koma núna í fjárlögunum, sem er 200.000 kr., er mjög góð. Það var breytingartillaga sem kom frá Flokki fólksins og öðrum stjórnarandstöðuflokkum fyrir ári síðan sem ríkisstjórnarflokkar hafa nú tekið upp. Hún mun ekki ná til ákveðins hóps. Frítekjumark gildir ekki um þá sem fá framfærsluuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Aðrar breytingartillögur Flokks fólksins ná m.a. til almannatrygginga, þar sem lagt er til að fjárhæð almannatrygginga hækki um 10% milli ára til að tryggja að kjör öryrkja og eldri borgara haldi í við launaþróun og verðlag. Við ætlum að ná til þessa hóps sem hefur verið brotið á skv. 69. gr. laga um almannatryggingar.