153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er það einfaldlega svo að þegar kemur að stjórnarfrumvörpum þá er ráðuneytum og ráðherrum gert að greina hvaða áhrif sú lagasetning, frumvörpin sem þeir eru að leggja fyrir þingið, hafi á stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna og réttindi borgaranna samkvæmt mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að uppfylla. En það kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi að ekki hafi þótt tilefni til að kanna það hvaða áhrif það hefði á stjórnarskrárbundin réttindi og mannréttindasáttmálabundin réttindi þeirra sem málið snýr að. Það hafi ekki þótt tilefni til þess þó svo að málið hafi augljós áhrif á þessi réttindi, bæði stjórnarskrárbundin og sem varða mannréttindasáttmálann, flóttamannasáttmála Evrópu og mögulega fleiri, eins og t.d. barnaréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Það var beðið um álit. Það var beðið um sérfræðiálit á þessu vegna þess að ráðuneytið vann ekki þá vinnu sem ráðuneytið á að vinna. (Forseti hringir.) Því var hafnað. Auðvitað er þetta mál ekki fullbúið. Auðvitað á að fleygja því rakleiðis af dagskrá.