153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Sælla minninga gætum við t.d. talað um NPA-samningana sem er búið að vera að ströggla hér með fram og aftur í þinginu um allnokkurt skeið þar sem var kvótasetning. Allir áttu að fá þessa þjónustu. Það er lögbundið. Það eru mannréttindi. Það á að taka utan um þennan hóp sem er algerlega ósjálfbjarga, þarf aðstoð. En nei, það var kvótasett. Af 170 einstaklingum sem þurftu þjónustuna þá fengu 90. Eitthvað er nú verið að bæta í en mér skilst að enn sé verið að taka bara smábarnaskref í áttina vegna þess að enn þá verða einhverjir skildir út undan. Þessir einstaklingar sem ég er sérstaklega að vísa til núna, t.d. hjá Sjónstöðinni — sem er bara svo ofboðslega sorglegt vegna þess að því fyrr sem litlu börnin, sem eru að glíma við sjóndepru og erfiðleika sem hamla þeim í rauninni í daglegu lífi, geta tileinkað sér hjálpartækið sem getur breytt lífi þeirra til batnaðar því betra fyrir þau til framtíðar. En í þessu tilviki þá er verið að jaðarsetja hér heilan hóp af börnum vegna þess að þau fá ekki einu sinni túlkaþjónustu. Það er ekki einu sinni verið að borga fyrir túlkaþjónustu. Ég segi: Það er ekki nóg að opna faðminn og þykjast vera voðalega góður en taka hópinn um leið og jaðarsetja hann. Það er alveg eins og þegar búið er að lögbinda það hér að það eigi að vera leiðsöguhundar skilyrðislaust fyrir þá sem óska eftir því og þurfa á því að halda. En nei, bíddu aðeins, þið getið bara fengið þrjá. Þó að það séu 18 á biðlista, sjáið þið til, þá er bara sagt: Nei, það eru bara þrír á ári sem þið fáið peninga fyrir. Þannig að þessi löggjöf er stórlega í mótsögn við sjálfa sig og eiginlega bara eins og svo margt annað, bara þverbrotin í mask. Ég spyr hv. þingmann til baka: Hvað er til ráða, hv. þingmaður? Hvernig getum við látið þá sjá ljósið?