153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Staðreyndin er sú að hugtakið sem ég vil nota hérna við andsvar hv. þingmanns er að mér finnst þetta óforsvaranlegt. Það er algerlega óforsvaranlegt að vera alltaf að lofa hinu og þessu og standa svo ekki við það. Það er óforsvaranlegt að gera okkur algerlega ómarktæk orða okkar þegar við erum að greiða hér atkvæði um ákveðin málefni. Okkur er það algerlega í hjartans mun að hlutirnir nái fram að ganga. En af því að við erum í stjórnarandstöðu, þó að við séum fjárveitingarvaldið, er bara ekkert gefið fyrir það sem við höfum að segja og við þurfum í rauninni að söngla það að Svörtuloftum daginn út og inn til þess að hlýtt sé á okkur hér af hinu frábæra framkvæmdarvaldi, ríkisstjórninni sjálfri. Innan ramma, það er nákvæmlega það sem við erum að tala um. Þarna eru 100.000 kr. í þennan málaflokk. Þið skulið gjöra svo vel að bæta við í málaflokkinn en það kostar 3 milljónir. En vitið þið hvað? Þær eru ekki til, þið hafið bara 100.000 kr. Það er bara þannig sem það er. Fjárheimildin er ekki til staðar. Það vantar peninga í verkefni sem er búið að setja á Blindrafélagið, sem Blindrafélagið er með í þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni. Það vantar fjármuni til að geta fylgt þessu eftir og hjálpað þessum börnum, stór hluti af þessum hópi eru börn, en peningunum er ekki komið til þeirra, því miður. Ég veit ekki til þess að það sé nokkur leið í þessum fjárlögum eða neitt hafi í rauninni blómstrað í þessum fjárlögum í þá átt að það eigi að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöðina. Ég er náttúrlega ekki lengur í fjárlaganefnd þannig að ég get verið algjörlega í bullinu og vonast til þess að ég hafi rangt fyrir mér og það sé verið að setja fullt af peningum í þjónustu- og þekkingarmiðstöðina. En ég hef ofboðslega miklar efasemdir um það, því miður. Við þurfum, hv. þingmaður, að gera eitthvað í þessu núna og koma með breytingartillögu og ná í peninga fyrir fólkið okkar. Við þurfum að hjálpa því.