153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Jú, þetta dregur úr trúverðugleika, þetta dregur í rauninni úr virðingu Alþingis. Það sjá það allir, sér það allur almenningur sem fylgist með, hvernig fjármunum hér er forgangsraðað. Það var ekkert mál að henda 2 milljörðum í stólaskipti og eitt nýtt ráðuneyti til að ríkisstjórnin gæti hangið saman, sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili. Það var allt í lagi með það. Ég nefni aftur 6 milljarða í Snobbhill á Austurbakka, það er allt í lagi með það. Það er allt í lagi með 3 milljarða í Svörtuloft, allt í lagi að lækka bankaskatt á bönkum sem munu sjálfsagt sýna hátt í 100 milljarða hagnaði á þessu ári. Það er allt í lagi. En þegar kemur að því að setja fjármuni þangað sem nauðsyn er fyrir þá og þörfin er brýnust þá virðist það vera mun snúnara. Þannig að ásýnd okkar hér, að geta ekki staðið yfir höfuð við það sem hefur jafnvel þegar verið samþykkt á þinginu, er ekki góð.