153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Staðreyndin er sú að því miður er þetta nefnilega ekkert grín. Maður veltir hins vegar fyrir sér hvort viðkomandi hafi kannski verið með Covid þegar hann setti þetta á blaðið, hafi verið með svona heilaþoku, eitthvað svoleiðis, vegna þess að það er með hreinum ólíkindum hvað er sett þarna á blaðið. Nú er t.d. verið að hækka leiguna, eins og allir eru að tala um, upp úr öllum rjáfrum hjá þessum hagnaðardrifnu leigufélögum, 30%, takk fyrir, hjá 65 ára gamalli konu sem er öryrki og verður sennilega að segja skilið við sinn leigusala og fara bara á götuna. Mér skilst eigendur leigufélagsins hafi grætt 12,4 milljarða í fyrra. Mér skilst að þau séu með að meðaltali í 86 milljónir hvert fyrir sig í tekjur á mánuði en samt sem áður verða þau að hækka leiguna vegna þess að það er svo erfitt árferði hér. Hvernig er verið að verja heimilin? Það er ekkert verið að verja heimilin, ekki einu sinni húsnæðisliðurinn hefur verið tekinn út úr vísitölunni til þess að lækka þá a.m.k. verðbólguna meðan á þessu ömurlega árferði stendur. Núna erum við að horfa upp á þessar krónuvísitöluhækkanir sem eru að koma hingað inn í janúar sem veita ákveðnum þrýstingi út í hagkerfið og munu þrýsta upp verðbólgunni enn frekar. Brennivín, sígarettur, hver skyldi nú þurfa það? Það skiptir engu máli hvað hluturinn heitir, staðreyndin er sú að hér mun allt hækka um allt of mörg prósent. Heimilin eru að sligast, verðtryggingin af lánunum er algerlega að fara með marga, afborgunin af láninu mínu hefur hækkað um 50% síðan í vor þannig að ég myndi ekki halda því fram í eina sekúndu að eitthvað sé að marka eitt einasta orð af því sem hv. þingmaður vísaði hér í. Ég er enn á því að þarna hafi einhver heilaþoka verið á ferð þegar þetta var sett á blað.