153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir síðara andsvar. Nei, ég deili náttúrlega alls ekki þeirri framsetningu hæstv. fjármálaráðherra. Staðreyndin er sú að í þeim herbúðum er mikið talað um OECD, mikið talað um meðaltölin. Það er mikið talað um hvað við höfum það rosalega gott og aldrei haft það betra. Jú, jú, hugsanlega má líta á kjallaraíbúðina sem einstaklingurinn getur engan veginn greitt af og blanda henni saman við villu á Arnarnesi og að meðaltali þá hlýtur þetta að vera alveg frábær afkoma þessara heimila. Þetta er alveg eins og hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir í Flokki fólksins hefur ítrekað sagt: Standandi með annan fótinn í alveg glóandi heitu vatni og hinn í jökulköldu, að meðaltali hefur hún það alveg rosalega gott. Það sem er að gerast núna, það náttúrlega segir sig sjálft, við erum komin hér í vexti upp á 8–10%. Við erum með verðbólgu sem er yfir 9%. Ástandið í rauninni á Íslandi í dag er virkilega dapurt og það er svo langt frá því að heimilin í landinu hafi það gegnumgangandi rosalega gott.