153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tækifærið hér til skoðanaskipta um þetta. Ég nefndi þetta aðeins í ræðunni minni vegna þess að mér finnst hæstv. dómsmálaráðherra setja okkur í svolítið sérkennilega stöðu hvað þetta varðar. Það er full ástæða til að taka það aðeins fyrir í fjárlagaumræðunni, þ.e. þegar notuð er, svo ég sletti, einhver retorík eða orðræða um það að nú þurfum við að fara í stríð. Hver vill ekki berjast gegn glæpum? Erum við ekki öll sammála því að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn glæpum? Það sem ég er hins vegar að segja er að þegar menn nota svona orð eins og stríð þá gerist það að sá sem þú ert að segja að þú ætlir í stríð við setur sig í einhverjar stellingar og er þá líklegri til að vígbúast meira en ella, þannig að ég held að út frá því sé þetta ekki heppilegt. Við sjáum þess síðan auðvitað merki í fjárlagafrumvarpinu, í þeim fjárlögum og fjárreiðum sem kerfin sem undir eru í þessu stríði heyra undir, að þarna fara ekki saman hljóð og mynd.

Hitt er síðan annað að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að mjög skilvirk leið til þess að draga úr þörf á einhverju stríði — við komum sjálfsagt aldrei í veg fyrir glæpi, en með því að efla alls konar félagsleg úrræði, með því að efla forvarnir, með því t.d. að fara aðrar leiðir í baráttunni gegn fíknivandanum og þar fram eftir götunum þá erum við auðvitað, af því við erum að tala um fjárreiður ríkisins, til lengri tíma að horfa fram á gríðarlegan sparnað ef við leggjum aðeins meiri vinnu og rækt í það. En þetta er nú einmitt alltaf vandinn þegar við erum í fjárlögunum; við erum oft að hugsa bara mjög stutt fram í tímann í einu. En ég held að það sem hv. þingmaður er að vekja hér máls á sé kannski stærri viðhorfsbreyting og einhver kerfisbreyting sem myndi fylgja því almennt, bara þegar kemur að ýmsum félagslegum þáttum, hugarfarsbreytingu og öðru, sem myndi þá spara peninga í þessum kerfum til lengri tíma litið og auðvitað búa til miklu betra samfélag.