Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[10:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni velferðarnefndar, fyrir þessa fallegu framsögu hvað varðar þennan hluta almannatryggingaþega. Ég heyrði að hún talaði um að heildarendurskoðun væri á almannatryggingalögunum núna og það væri svona einhver réttlæting fyrir því að einstaklingar innan þessa kerfis, eldri borgarar sem voru öryrkjar og löbbuðu yfir í það að verða ellilífeyrisþegar og eru jafnvel með lakari kjör en öryrkjar — hvernig í ósköpunum er hægt að segja við þetta fólk: Vitið þið bara hvað? Það er heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum. Haldið þið bara áfram að lepja dauðann úr skel um jólin. Eru þetta fallegu skilaboðin? Svo tók ég eftir öðru sem hv. þingmaður nefndi hér áðan og það var þetta skemmtilega hugtak, starfsgetumat. Mig langar til að spyrja um það hvort því muni fylgja fjármunir þegar það verður komið á borðið að þeir öryrkjar sem hafi einhverja starfsgetu geti hlakkað til að komast í 10–50 eða 60% stöður.