Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir áhugaverða ræðu og umræðu hér í andsvörum. Hann lauk orðum sínum í síðara andsvari við hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur á að fjárveitingar ættu ekki að vera takmarkandi þáttur hvað varðar þessi mannréttindi. Nú á ég sæti í fjárlaganefnd og þar koma iðulega fyrir NPA-samningarnir, samningar um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk, og það fyrsta sem ég verð var við er að sveitarfélögin ráða ekki við þessa samninga. Þau ráða illa við þá eða nánast ekki. Þetta er ein helsta ástæðan fyrir gríðarlegum halla hjá mörgum sveitarfélögum, Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagi landsins, og fleiri sveitarfélögum.

Eins og kom fram í síðara svari við andsvari þá er fækkun á milli ára, úr 172 samningum um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA-samningum, í 145. Það er fækkun um 15% og það eru samningar sem ekki náðist að klára. Telur hv. þingmaður ekki rétt að ríkið ætti að taka þennan málaflokk til sín, a.m.k. að hluta, a.m.k. hvað varðar stærstu samningana? Þetta væri þá yfir allt landið. Þetta eru samningar sem eru mjög keimlíkir ef þú horfir yfir allt landið en kannski einstakir fyrir sérstök sveitarfélög sem eru mjög fá. Við erum t.d. með nokkur sveitarfélög sem eru undir 100 manns. Væri ekki rétt að þessi málaflokkur færi til ríkisins að öllu leyti eða a.m.k. að hluta og þetta væri þá könnu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) og það bæri algerlega ábyrgð á þessu?