Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar og það er gott að heyra að hann er sammála mér í því að þetta eigi ekki að vera þarna inni. Vandamálið er nefnilega það að þegar textinn er orðaður þannig, að aðstoð sé veitt til viðbótar framlögum, þá hljómar það eins og þetta sé kannski í ofanálag. En síðan þegar lesið er aðeins seinna í greinargerðinni þá segir þar, með leyfi forseta: „Gerð er tillaga um 277 m.kr. lækkun á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Tillagan byggist á nýrri spá um þjóðartekjur fyrir árið 2023 …“ Það er nefnilega þannig að það er verið að miða við að heildarútgjöldin á þessu sviði séu 0,35% af þjóðartekjum. Það þýðir að ef þessar 1.500 milljónir væru settar fyrir utan þá væru aðrar 1.500 milljónir að fara inn í þetta. Þetta er fallega orðað í greinargerðinni, eins og þetta sé að koma ofan á 0,35% og sé þar af leiðandi peningur til viðbótar, en það er í rauninni verið að taka úr því sem er þessi 0,35% pottur. Svo má ekki gleyma því að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, setti það markmið fyrir ansi mörgum árum síðan að lönd heimsins ættu að stefna að 0,7%. Við erum bara hálfdrættingar þannig að það hefði verið allt í lagi að hækka þetta upp í 0,36. Það væri góð leið á leiðinni upp í 0,7. En, nei, ríkisstjórnin hefur ákveðið að halda þessu í 0,35% út kjörtímabilið.