Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði nú að spyrja hv. þingmann aðeins út í annað í ræðunni sinni en upprunaábyrgðirnar eru svo fyllilega áhugaverðar, sérstaklega út af t.d. frétt Stundarinnar sem kom út í gær. Þar er talað um að Landsvirkjun sé mögulega að hætta að gefa íslenskum heimilum upprunaábyrgðina í sinni sölu til þeirra. Það mun þýða 15–20% hækkun á orkuverði, merkilegt nokk. Mjög merkilegt ef það verður raunin og verður held ég risastórt vandamál að glíma við. Þegar allt kemur til alls þá hlýtur það að vera ákveðin endurspeglun á ávöxtunarkröfu ríkisins til Landsvirkjunar sem hefur þau áhrif að Landsvirkjun reynir að hámarka allan ágóða af orkuframleiðslu sem hún getur, þar á meðal að taka t.d. þessar upprunaábyrgðir sem almennt séð fara til íslenskra heimila og selja þær aukalega, sem er bara ákvörðun sem mun hvíla á eigendum Landsvirkjunar þegar allt kemur til alls, þ.e. okkur og þeim sem stjórna þeirri eign eins og er, ráðherrum og ríkisstjórn.

Hv. þingmaður minntist örstutt á borgarlínuna eða í rauninni uppbyggingu almenningssamgangna og þéttnina sem skortir hérna á Íslandi. Við erum náttúrlega að byggja upp almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu fyrir a.m.k. 70.000 manna fjölmennara höfuðborgarsvæði, líklega enn þá fjölmennara miðað við að spá um mannfjöldaþróun hefur hækkað síðan. Þegar borgarlínan er tilbúin verða 70.000 fleiri á höfuðborgarsvæðinu sem breytir aðeins þéttninni sem talað er um að sé nauðsynleg fyrir borgarlínu.