153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra ellilífeyrisþega.

[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, þau gleðitíðindi sem hafa borist héðan úr okkar hásölum hv. Alþingis, að öryrkjar munu fá 60.300 kr. eingreiðslu núna í desember og það ber að þakka. Ég hef ítrekað verið að berjast fyrir því í ræðu og riti og alls staðar, og þar á meðal með breytingartillögu við fjáraukann, að sama verði gert fyrir þann hluta eldri borgara, eldra fólks, sem er með óskertar greiðslur frá Tryggingastofnun. Það er vitað að almannatryggingalögum var breytt 1. janúar 2017, þar sem var komið til móts við eldra fólk, ákveðinn hóp eldra fólks, umfram það sem var gert með öryrkja. En það er ekki sá hópur sem við í Flokki fólksins með okkar breytingartillögum, og með stuðningi nánast allrar stjórnarandstöðunnar, erum að kalla eftir eingreiðslu fyrir. Við erum ekki að kalla eftir eingreiðslu fyrir þann hóp sem hefur fengið afnám krónu á móti krónu skerðingar, hópinn sem hefur haft möguleika á því að vinna. Við erum eingöngu að kalla eftir þessum greiðslum fyrir þann hóp sem er með óskertar greiðslur frá almannatryggingum, fullorðið fólk sem í rauninni er hneppt í rammgerða fátæktargildru og býr hér í sárri neyð. Við erum að óska eftir því og ég mun flytja nýja breytingartillögu enn í dag og aftur í kvöld og alveg þangað til ég veit ekki hvað, alveg þangað til 2050, þangað til í rauninni að eitthvað gerist í málunum. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson: Er eitthvað á teikniborði ráðherra núna? (Forseti hringir.) Hvað er að frétta? Ætlið þið að gera einhverjar breytingar og bragarbót í þessum efnum?