Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:09]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir sín svör við afar áhugaverðum spurningum málshefjanda. Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra þá er hin pólitíska ábyrgð liður í hinni lýðræðislegu umboðskeðju sem á endanum rekur sig til kjósenda, því að þangað sækjum við, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, umboð okkar. Það er í kosningum sem við dæmum, ef svo má að orði komast, ráðherra og aðra kjörna fulltrúa af verkum sínum. Það er líka okkar, hinna lýðræðislega kjörnu fulltrúa, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Hér á vettvangi þingsins er sérstök stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eins og við þekkjum, og hún er einmitt eitt þessara tækja sem við höfum til að sinna þessu aðhaldi í formi eftirlits. Að mínu viti er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eitt sterkasta tækið. Við sem nú sitjum í þeirri nefnd höfum við verið að fjalla um skýrslu ríkisendurskoðanda um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ríkisendurskoðandi hefur rýnt málið ofan í kjölinn og skilað gagnrýninni skýrslu um málið. Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess samkvæmt lögum sem um hann gilda. Hann er sjálfstæður og engum háður í sínum störfum. Trú og traust á stofnunum er mikilvægt eins og fram hefur komið bæði í opinberri umræðu og í máli gesta sem hafa sótt nefndarfundina. Mér finnst líka mikilvægt að við höfum trú og traust á þessum eftirlitsstofnunum okkar en við þessa yfirferð á skýrslunni fáum við ýmsa gesti, eins og ég hef komið inn á, og erum í raun og sanni enn að velta við hverjum steini í þessu máli, svo ég komi aftur að þeirri líkingu. Skýrslan er góð og ég fæ ekki betur séð en að þessi trúnaðarmaður okkar, hinna lýðræðislega kjörnu fulltrúa, hafi farið yfir ferlið gagnrýnum augum. En eins og ég segi, virðulegi forseti, þá erum við enn að og sinnum okkar skyldu að veita framkvæmdarvaldinu aðhald með okkar eftirliti. Þar erum við að skoða og fjalla um hið matskennda hugtak pólitíska ábyrgð.