Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er verið að biðja um 150 milljónir handa þeim sem úthluta mat. Það hefur komið vel fram að þar vantar virkilega upp á. Stór hópur fólks fer heim á hverjum einasta degi og fær engan mat. Það stendur í röð með börnin sín og fær ekki mat. Við erum að biðja um að þessi hópur geti haft hangikjöt, laufabrauð, rauðkál og grænar baunir um jólin. Er svo erfitt að finna pening fyrir því? Það fundust 150 milljónir fyrir Kvikmyndasjóð í einu ráðuneytinu. Hvernig væri að kíkja inn í öll skúmaskotin í hinum ráðuneytunum og vita hvort þar finnast ekki 150 milljónir fyrir mataraðstoð? Ef þeir hefðu vilja til þess og leituðu þá myndu þeir finna þær. Nú mega þeir bara fara af stað að leita. Fyrst hægt var að finna 150 milljónir fyrir Kvikmyndasjóð þá er örugglega hægt að finna 150 milljónir fyrir þetta.