Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:30]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir seinna andsvar sitt sem var mjög fróðlegt. Ég tel að hlutafélagalýðræði sé gríðarlega mikilvægt og það sé takmarkað með þessum hætti, mjög afgerandi, bæði varðandi hluthafafund og líka með þessum langa fresti, að frestur skuli geta orðið allt að ein vika á meðan hin Norðurlöndin, miða þetta eingöngu við aðalfund og fresturinn er líka skemmri, t.d. fimm dagar í Svíþjóð, fimm dagar í Noregi og þrír dagar í Danmörku, ef ég skil það rétt.

Varðandi hlutafélagalýðræðið þá getum við tekið dæmi frá Bandaríkjunum. Þar er lýðræðið þannig að þú þarft að skrá þig ef þú ætlar að kjósa. Þarna er verið að krefjast þess að hluthafinn skrái sig ef hann ætlar að kjósa á hluthafafundinum, ætlar að neyta atkvæðisréttar síns. Þetta er sambærilegt. Ég get tekið annað dæmi. Áður en Martin Luther King og hans mikla mannréttindabarátta hófst þá var það t.d. þannig að þegar svertingar ætluðu að skrá sig þá var í Suðurríkjunum komið með svona krús með kúlum í og þeir áttu að giska á það hvað margar kúlur voru í henni, þeir áttu að taka það próf svo þeir gætu skráð sig. Það er erfitt að finna það út og þeir giskuðu oftast rangt. Það að þurfa að skrá sig er í eðli sínu takmarkandi þáttur á lýðræði, líka hlutafélagalýðræði. Árið 1978 þegar lög nr. 32/1978, um hlutafélög, voru samþykkt, þá bar efri deild Alþingis þá gæfu að taka þetta ákvæði út. Af hverju? Af því að það væri óheppilegt og fæli í sér of mikla skerðingu á rétti hluthafa. Ég get sagt það í dag. Þetta er óheppilegt og felur í sér of mikla skerðingu, 1. gr. eins og hún er í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) af því að hún gengur of langt, fresturinn er of langur og nær til hluthafafundar líka, ekki bara aðalfundar.