Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og greinilegt að hann hefur kynnt sér þessi mál mjög vel. Ég lærði t.d. „Corporations“ eða hlutafélagarétt úti í Bandaríkjunum. Þetta er mjög áhugavert svið og heilmikil fræði í kringum þennan kapítalíska markað. Mér finnst í þessari löggjöf vanta rökin fyrir því af hverju við erum hætt að líta á þetta sem óheppilega takmörkun og of mikla skerðingu á rétti hluthafans. Það eru engin rök fyrir því. Eignarréttarákvæðið er skýrt. Eignarrétturinn er friðhelgur og ef það á að taka eign af einstaklingi eða takmarka hana, þarf almenningsþörf að krefjast þess. Ég get ekki séð að almenningsþörf krefjist þess að þetta nái bæði yfir hluthafafundi og aðalfundi og að fresturinn sé svo langur. Hv. þingmaður kom mjög vel inn á það. Segjum sem svo — þetta er jú varðandi hlutabréfshluti sem eru teknir til viðskipta á skipulegum markaði — að aðalfundur sé 1. febrúar. Daginn áður þá getur vel verið að einhver einstaklingur kaupi helling af hlutabréfum í hlutafélagi sem er með aðal- eða hluthafafund 1. febrúar. Hann á engan rétt á að beita atkvæðisrétti sínum samkvæmt eigninni sem hann keypti daginn áður eða þremur dögum seinna. Það er ekkert sem réttlætir það að hann eigi ekki að hafa þennan rétt, a.m.k. kemur það ekki fram í frumvarpinu. Það er mjög mikilvægt að það sé rökstutt hvers vegna við erum að takmarka þetta. Ég er á því að íslenskt samfélag, jafn lítið og opið og það er, eigi ekkert að hafa svona rétt. Íslendingar eru bara þess eðlis að þeir eru vanir að koma á fundi sem þeir óska eftir að fara á, hluthafafundi sem þeir eiga rétt á að sækja og greiða atkvæði eins og þeim sýnist. Þeir þurfa ekki að spyrja kóng né prest eða stjórn sem þeir eru kannski ekkert vilhallir ef þeir vilja láta að sér kveða á þessum fundi. Það eru ekki rök fyrir þessari skyldu, (Forseti hringir.) sem er mjög mikilvægt atriði og eitthvað sem við þurfum að fjalla um hér í þinginu, í þinglegri meðferð þessa frumvarps.