Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru að verða komin tvö ár síðan ég átti mjög athyglisverðar umræður um akkúrat þetta mál við aðila úr stjórnkerfinu og við ræddum hvað það væri mikilvægt að við tækjum gagnadrifnar ákvarðanir og hvað það væri mikilvægt að öll sú fjárfesting sem er að fara í stafræna umbyltingu Stjórnarráðsins gengi ekki bara út á að taka það sem við erum með í dag og henda því yfir á pdf og taka þannig við gögnum heldur að við tækjum við gögnum á þannig máta að við gætum síðan gert eitthvað við þau. Bara sem dæmi er það þannig í dag að mikið af reikningum sem koma inn til ríkisins eru á pdf-formi eða eru jafnvel pappírsreikningar, en við erum að færa okkur smátt og smátt yfir í það að allir reikningar sem koma inn til ríkisins séu í rauninni rafrænir reikningar. Af hverju skiptir það máli? Jú, það er nákvæmlega það sama. Segjum að ég vilji geta flett því upp hvert meðalverð hafi verið á öllum pennum sem voru keyptir hjá ríkinu á síðastliðnu ári. Ef ég er bara með pdf-skjal með reikningi þar sem stendur „20 pennar“ þá get ég ekki leitað í því skjali að þessum gögnum, af því þetta er bara skjal. Hins vegar ef reikningurinn er rafrænn þar sem hver og ein lína í reikningnum er sett inn sem gögn þá get ég leitað eftir þeim gögnum. Ég veit ekki hvort það er áhugavert að vita hver meðalkostnaðurinn er á penna en það eru ýmsir hlutir sem við spyrjum um hér á þingi sem væri þægilegt að geta vitað betur um svona.