Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í dag eru 100 ár liðin frá andláti Hannesar Hafsteins, alþingismanns, ráðherra Íslands, forseta Alþingis, skálds og baráttumanns fyrir fullveldi landsins. Nú 100 árum eftir að Hannes lést höfum við ekki fulla stjórn á eigin landamærum. Það er merkilegt að líta á dagskrá þingsins á þessum degi. Fyrr á þessari öld lagði dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp um útlendingamál sem ætlað var að styrkja lítillega stjórn okkar á eigin málum og fullveldi. Þetta mál hefur nú verið lagt fram fimm sinnum og þynnt út í hvert einasta skipti. Það var komið aftur á dagskrá en svo komu fáir stjórnarandstöðuþingmenn og töluðu í nokkra klukkutíma um fjárlög og málið, sem átti að vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar á þessu þingi, er horfið eina ferðina enn. Sjálfstæðismenn hefðu getað litið til Hannesar Hafsteins og sagt um þetta frumvarp: „Þótt þjaki böl með þungum hramm / þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.“ En nú virðist flokkurinn bara gera slíkt þegar um er að ræða sérstök áhugamál VG eða Framsóknarflokks, ef slík áhugamál eru enn til þar. Ef þetta hefði verið Evrópureglugerð hefði ríkisstjórnin hvergi hvikað í að koma því í gegn, eins og dæmin sanna. Ef málið er hins vegar tilraun til að treysta eigin fullveldisrétt þá er því fórnað aftur og aftur. Og við landsmenn, sem hafa áhyggjur af stöðu fullveldis mála 100 árum eftir andlát Hannesar Hafsteins, segi ég:

Þú vilt eigi lengur dott né draum,

vilt dirfast fram í tímann straum.

Lát hleypidóma' í hræða þig,

haltu fram beint á sönnum frelsisstig.

— Og kjóstu Miðflokkinn.