Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér aðeins eftirlit með þeim sem veita velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Á síðasta þingi spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra út í eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu og kom þá í ljós að tvö stöðugildi eru hjá embættinu til að fylgjast með 3.300 heilbrigðiseiningum og rúmlega 25.000 heilbrigðisstarfsmönnum. Þetta eru tvö stöðugildi hjá embætti landlæknis sem eiga að geta haft eftirlit með heilbrigðisstarfsemi um allt land. Eftirlit með veittri velferðarþjónustu er sömuleiðis í nokkru skötulíki en Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er ríkisstofnun sem er nýstofnuð sem fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga, laga um Barna- og fjölskyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, málefni aldraðra, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og loks laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þeir sem eiga að fylgjast með allri þessari velferðarþjónustu hjá Gæða- og eftirlitsstofnun eru þrír. Það eru þrír í teyminu sem eiga að fylgjast með öllu þessu. Og af hverju er ég að hafa orð á þessu? Jú, vegna þess að þeir sem þurfa að nýta velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu á Íslandi eru oft í mjög viðkvæmri stöðu til þess að bera hönd fyrir höfuð sér ef illa gengur. Þá vil ég líka hafa orð á því að þegar óskað er eftir rannsókn á meðferð, eins og var hjá hv. velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, fullorðinna fatlaðra og fullorðinna með geðrænar áskoranir þá þarf að vera rannsókn, ekki bara (Forseti hringir.) ákvörðun um veitingu bóta eins og hæstv. forsætisráðherra tilkynnti í síðustu viku heldur vill fólk fá staðfestingu á misbeitingu valds.