Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið við andsvari mínu. Ég er sammála hvað varðar eiginlega allt sem hv. þingmaður sagði hér á undan, ég er sammála því að kerfið finni leiðir til að klekkja á manni. Hv. þm. Inga Sæland, í svari við andsvari mínu, kom inn á það að hún væri bara við það að fá taugaáfall þegar kæmi að endurskoðun almannatryggingakerfisins út af því að maður veit ekki hvernig þetta skilar sér, hvernig niðurstöðurnar verða. Það þarf eiginlega, alveg eins og hv. þm. Inga Sæland sagði, að núllstilla kerfið og byrja upp á nýtt. Það er einhvern veginn svo rótgróið í okkur að sætta okkur við það að fátækasta fólkið í landinu og fólkið sem hefur það verst í landinu hafi það áfram skítt, bara minna skítt en það gerði fyrir gildistöku síðustu laga. Þetta er ekki framför. Þetta er nákvæmlega eins og með fjárlögin, í 1. umr. fjárlaga var komið með einhverja upphæð og svo í 2. umr. var bætt meira við eins og það sé eitthvað geggjað, eins og það sé frábær framför. Það er náttúrlega nauðsyn að sjá til þess að fólkið sem er verst statt hér á landi geti framfleytt sér með hætti sem veldur því ekki kvíða, sem er ekki að fara að orsaka meiri örorku t.d., sem er ekki að fara að raska endurhæfingarferli af því að, guð minn almáttugur, hvað fjárhagsáhyggjur geta haft mikil áhrif á andlega og líkamlega líðan og heilsufar almennt. Ég held að það sé samtal þar sem við þurfum líka að vera miklu háværari, um hvað fjárhagsvandræði geta valdið mikilli afturför þegar kemur að endurhæfingu. Stjórnvöld þurfa að standa sig betur í því að líta til þessara atriða þegar kemur að ákvörðun um t.d. framfærslu og örorkubætur og alls konar mála sem varða almannatryggingar.