Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Varðandi þetta mál. Hv. formaður fjárlaganefndar kom hér upp í ræðu og vísaði á vefinn visir.is og í grein hæstv. forsætisráðherra þar. Ég tók eftir því í gær að það var stjórnarandstöðuflokkur sem dró til baka breytingartillögur sínar eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra um að það væru hærri tillögur frá ríkisstjórninni. Svo sé ég það að jú, það er vissulega rétt en í greininni er talað um óbreytt kerfi. Það er talað um einföldun barnabótakerfisins og að það eigi að draga úr skerðingum og taka út samtímagreiðslur, þ.e. greiðslur innan fjögurra mánaða. Ég spurði nú að þessu: Ef við ætlum að draga úr skerðingum, hvað mun það kosta? Hvað á að draga úr skerðingunum um margar milljónir? Það kom ekki fram. Við fengum engar upplýsingar um það. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra tekur dæmi um sambúðarfólk með (Forseti hringir.) 400.000 kr. í mánaðarlaun og tvö börn og segir að þessar breytingar muni þýða að þau fái tæplega 110.000 kr. meira í barnabætur á árinu. (Forseti hringir.) Bara varðandi eitt barn mun skerðingin hækka úr 4%, 5%, hækkun upp á 1%.

(Forseti (AIJ): Forseti minni á afar takmarkaðan ræðutíma undir þessum lið.)