Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. 13 milljarðar og 965 millj. kr. Þetta eru þær fjárheimildir sem gert hefur verið ráð fyrir á hverju ári næstu árin til barnabóta. Þetta er ákvörðun sem þegar liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, að barnabæturnar eigi að þróast svona næstu árin. Í gær kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, um atkvæðagreiðslu um fjárlögin, að ríkisstjórnin ætlaði að styðja betur við barnafólk og einfalda kerfið. Nokkrar þeirra breytingartillagna minni hlutans, sagði hún, sem liggja frammi miða að þessu sama marki. Sumar þeirra ganga skemur en ríkisstjórnin hefur boðað og því mun ríkisstjórnarmeirihlutinn fella þær tillögur minni hlutans. Þetta er það sem hér kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Áður hafði komið fram að ríkisstjórnin stefndi að því að hækka barnabætur meira en stjórnarandstaðan hefði lagt til. Af þessum sökum dró stjórnarandstaðan breytingartillögur sínar til baka. (Forseti hringir.) En nú ber svo við að ríkisstjórnin ætlar bara að hækka barnabætur um 600 millj. kr. á næsta ári, á samningstímanum (Forseti hringir.) vegna nýja kjarasamningsins. Þetta er það sem mér finnst óheiðarlegt. Með því er ekki sagt (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra sé óheiðarleg, svo sannarlega ekki. En þetta er óheiðarleg framsetning (Forseti hringir.) og ég stend við þau orð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (AIJ): Enn minnir forseti á afar takmarkaðan ræðutíma.)