Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, 6. þm. Reykv. s., fyrir andsvarið. Ég lít á þetta þannig: Það kemur tillaga frá stjórnarandstöðunni, Flokki fólksins eða Pírötum, góð tillaga. Henni er hafnað en hún vekur athygli í samfélaginu. Þau sjá að hún fær hljómgrunn. Þetta er gott mál en því er hafnað. En svo ári seinna þá fatta þau að þetta sé mál sem þau verði að taka upp og við getum sagt að þau séu að stela því, alla vega taka þau það upp og gera það að sínu, af því að þetta var gott mál 12 mánuðum fyrr, þau sáu að þetta var réttlætismál. Þetta sýnir algjört stefnuleysi hjá ríkisstjórninni og hugmyndaleysi. Það þarf ekki annað en að lesa stjórnarsáttmálann til að sjá þetta hugmyndaleysi. Við eigum að vera fremst í heimi í loftslagsmálum, vera fremst í heimi í tæknimálum, fremst í heimi í þessu og hinu. Ég hef ekki tekið það saman, ég á eftir að gera það, hversu oft ríkisstjórnin ætlar að vera fremst í heimi á hinum og þessum sviðum en það er fjórum, fimm sinnum sem við ætlum að vera fremst í heimi í loftslagsmálum og við uppfyllum ekki Kyoto-samninginn og ekki Parísarsamkomulagið, svo framarlega erum við í heiminum. Þetta minnir á Dunning-Kruger-heilkennið, þekkingarleysið er svo mikið að þú heldur að þú getir allt. Ákveðnir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hafa haft þetta heilkenni, en það er önnur saga. En þetta sýnir algjört stefnuleysi og líka hvaða gildum ríkisstjórnin er byggð á, sem eru ekki nein nema þau að vera við völd og þá langar að vera saman við völd. Þú sérð það líka bara á samsetningu ríkisstjórnarinnar. Það er sósíalískur, róttækur, femínískur vinstri flokkur sem er búinn til upp úr marxísk-lenínískum samtökum úr Árnagarði og íhaldsflokkur landsins, valdaflokkur landsins, þeir eru við völd. Þetta er náttúrlega engin stefna. En þeir heyra það sem er að gerast í samfélaginu og við erum dugleg í stjórnarandstöðunni og fyrir ári síðan kröfðumst við þess að öryrkjar fengju 200.000 kr. frítekjumark. Því var hafnað. En það er núna tillaga hér í dag og ég spái því og veðja á það að þessi tillaga okkar um eingreiðslu fyrir aldraða komi kannski eftir 12 mánuði.