Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir síðara svarið. Já, þetta er einkennilegt. Það er eitt sem er mjög athyglisvert sem við sjáum núna og það er að talað er um að það sé ákveðinn fórnarkostnaður hjá ríkissjóði. Þeir tala um að þeir séu að spandera þarna ríflega milljarði í að hækka frítekjumark upp í 200.000 kr. þegar staðreyndin er sú að akkúrat þessi upphæð gefur okkur glögga mynd af því hvað þeir hafa verið að skerða bláfátæka öryrkja mikið sem voru að reyna fyrir sér og reyna að afla tekna frá þessum 109.000 kr. upp í þessar 200.000 kr., hvorki meira né minna en ríflega milljarður sem ríkissjóður hirti af fólki sem það er búið að skattleggja hér í sárafátækt. Hv. þingmaður nefnir hér rörsýn og ég nefni að stíga ekki út fyrir boxið. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta tækifæri er ekki hreinlega gripið og einstaklingunum gefinn kostur á því að greiða hér skatta og skyldur, taka þátt í samfélaginu. En ég heyri á bak við tjöldin að í rauninni er hugsunin: En hvað með hina sem eru raunverulega á vinnumarkaði? Af hverju skyldi öryrkinn fá að vinna án þess að það skerði framfærsluna hjá almannatryggingum? Á móti segjum við: Öryrkinn er oftar en ekki með skerta starfsgetu. Hann á í rauninni ekkert val og ef við getum raunverulega hjálpað honum til að taka þátt í samfélaginu og á hinum almenna vinnumarkaði með öllum hinum þá væri það vel. Hann er með sínum sköttum og annað slíkt jafnvel að greiða nánast þá upphæð sem er verið að greiða honum í almannatryggingarnar. Auðvitað er þetta ekki þannig að hann verði alveg skerðingarlaus, hann fer bara upp í ákveðna upphæð, og auðvitað verður það aldrei þannig að hann geti bara makað krókinn. Það er enginn að tala um það.