Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Ég hlakka til þegar við göngum inn í nóttina og tökum smá Abba saman. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni: Það að færa þessa þjónustu yfir á sveitarfélögin án þess að því fylgi fjármagn var bara galið, einfaldlega galið, og eingöngu til þess fallið að ómögulegt er að veita þjónustuna vegna þess að sveitarfélögin, mörg hver, eru hreinlega að sligast, eins og hv. þingmaður bendir á. Hvort sem við færum þetta aftur yfir til ríkisvaldsins eða ekki, hvernig sem sú hugmynd liggur á borðinu, er staðreyndin sú að ef ríkisvaldið er að ætlast til þess að sveitarfélögin taki að sér hina og þessa þjónustuna, hvort sem það lýtur að heilsugæslu, skólamálum eða menntamálum, NPA-þjónustu eða annarri þjónustu við fatlað fólk, er staðan í mínum huga skilyrðislaust sú að fjármagn á að fylgja. Það eru landsmenn allir sem greiða skatta, meira að segja fátækustu landsmennirnir, sem eru skattpíndir hér, hvort sem þeir hafa ráð á því eða ekki, fátækt er skattlögð hér eins og við vitum. Það eru jú allir sem taka þátt í því að greiða í okkar ágæta ríkissjóð og þess vegna er ekki nóg að ríkisvaldið fleygi alls konar verkefnum yfir á sveitarfélögin. Jafnvel það stærsta þeirra, Reykjavík, er í miklum fjárhagsvandræðum, búið að spila allt úr buxunum — ég ætla ekki að segja orðið sem mér dettur í hug um það, hv. þingmaður verður bara að giska á það. En mér skilst að það vanti hátt í 1,5 milljarða frá ríkinu til þess að koma til móts við þær skuldbindingar sem búið er að setja á sveitarfélagið og höfuðborgina okkar, Reykjavík.