Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni og lýsi yfir mikilli ánægju með viðbrögð Útlendingastofnunar við þeim árásum og áróðri, það er ekki hægt að kalla það annað, sem stofnunin hefur orðið fyrir af hálfu annarrar ríkisstofnunar og það í formi meints barnatíma. Stofnunin hefur haft það erfiða hlutverk að framfylgja reglum án þess að mega nokkurn tímann að ræða einstök mál sem birtast í fjölmiðlum. Oft eru skýringarnar mjög einhliða og ekki alltaf réttar en stofnunin hefur ekki mátt svara fyrir sig með það. En þarna er á mjög kurteislegan hátt farið yfir staðreyndir mála og ég hvet fólk til að kynna sér það. En þessari stofnun, sem fæst við mjög erfitt verkefni, er ekki gert auðveldara fyrir af stjórnvöldum því eins og við þekkjum og meira að segja ráðherra málaflokksins hefur viðurkennt þá eru þessi mál í ólestri, stjórnlaus. Núna var forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, að tilkynna um það að strax eftir áramót myndi hann koma með löggjöf til þess í raun að segja Bretland frá alþjóðakerfinu í flóttamannamálum, enda væri það, eins og hann orðaði það, orðið úrelt. Ég hef útskýrt ástæðurnar fyrir því allnokkrum sinnum hér á Alþingi. Stefnan verður sú að enginn sem mætir ólöglega til Bretlands geti fengið þar dvalarleyfi eða hæli en Bretar muni áfram taka við kvótaflóttamönnum í samráði við Sameinuðu þjóðirnar og flytja til Bretlands eftir öruggum leiðum. Með öðrum orðum, taka glæpastarfsemina, glæpamennina, út úr þessu, fólkið sem setur aðra í hættu og hefur af því aleiguna. Á meðan þorir íslenska ríkisstjórnin ekki einu sinni að ræða hér á þinginu hið smávægilega og löngu útþynnta útlendingamál sitt.