Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég tók sérstaklega eftir í 2. umr. fjárlaga tillögu Viðreisnar um að setja nýjan 13 milljarða kr. skatt á stóriðjuna í landinu, kolefnisskatt, 13.000 milljónir. Ég vil benda Viðreisn á að íslensk stóriðja fellur undir ETS-viðskiptakerfið með losunarheimildir vegna losunar frá iðnaðarferlum í stóriðju og vegna flugs. Hér er því Viðreisn að fara inn á nýjar brautir í skattheimtu á Íslandi, allt aðrar. Við höfum ekki séð slíkar hugmyndir áður sem snúa að þessum málum. Þetta nær til álveranna þriggja, þetta nær til Elkem, járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, og verksmiðju PCC á Bakka. Í eðli sínu er Evrópusambandið tollabandalag og þar njótum við þess, Íslendingar, innan EES-samningsins að vera innan tollabandalagsins þegar kemur að framleiðslu í stóriðjunni. Við borgum nefnilega ekki 7% skatt til Evrópusambandsins inn í þetta kerfi vegna þess að við erum innan þessa tollabandalags. Þetta eru hins vegar alveg nýjar brautir og ég vil spyrja, og þá kemur bara svarið síðar: Þarna er verið að fara inn á algerlega nýjar brautir og á þá að vaða líka í flugið? Ætla menn að brjóta upp þetta kerfi sem ETS er? Ég vil spyrja sérstaklega um það. Í dag er stóriðjan að borga væntanlega í kringum 2 milljarða nú þegar til ETS og það mun hækka á næstu árum. Evrópa verður að framleiða, það er gríðarlega mikilvægt. Við höfum kynnst því núna vegna Covid og við höfum kynnst því núna vegna stríðsins í Úkraínu þegar aðfangakeðjur bresta að Evrópa verður að framleiða. Hún verður líka að framleiða í stóriðjunni vegna þess að það þarf að framleiða málma og við getum ekki horft upp á það að öll framleiðsla hætti í Evrópu á næstu árum. Ég vildi vekja athygli í störfum þingsins (Forseti hringir.) á þessum nýju sjónarmiðum sem eru komin hjá Viðreisn, um að ráðast þannig á stóriðjuna og raunverulega á framleiðslu innan Evrópu (Forseti hringir.) sem er gríðarlega mikilvægt þjóðaröryggismál fyrir Evrópuríki og rétt er að benda á.