Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Núna í aðdraganda hátíðar friðar og kærleika ber okkur að huga einnig að sómakærleika og sómakennd gagnvart þjóðinni sem við störfum fyrir og ekki síst þeim sem okkur ber að hafa efst í huga en dvelja jafnan neðst eða aftast í röðinni eftir t.d. matarkörfu Fjölskylduhjálpar Íslands. En við þurfum líka að huga að sóma okkar þegar við undirrituðum alþjóðlegar skuldbindingar til að mynda á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála. Það er ljóst að við höfum undirritað skuldbindingar sem við hefðum að líkindum mátt vita að við gætum ekki staðið við. Í loftslagssamhenginu erum við háð því að flytja hingað, í einni okkar stærstu búgrein, milljónir ferðamanna með flugi sem skekkir mjög alla reikninga. Sömuleiðis er sjávarútvegurinn knúinn af olíuskipum. Það er ákveðinn ómöguleiki í því enn sem komið er. Hins vegar er það svo að við erum að innheimta 7,5 milljarða á ári í kolefnisgjöld sem til að mynda Norðmenn setja í sérstakan sjóð til að menn geti sótt í styrki til að framkvæma það sem þarf til að orkuskipti eigi sér stað, t.d. í skipaflotanum. Ég tel að við eigum tvímælalaust að feta í þeirra fótspor og firra okkur yfirvofandi hundruð milljóna króna sektum. Það eru 800 milljónir vegna Kyoto, hvað verður það út af Parísarsáttmálanum sem við getum engan veginn staðið við? Þetta eru peningar sem við ættum að nýta í þágu góðra verkefna og þeirra sem minnst mega sín hér á landinu okkar. En ég tel að við þurfum að taka þessa umræðu í lengra og víðara samhengi en á þeim tveim mínútum sem okkur gefst hér í störfum Alþingis.