Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Nýverið vakti undirvefur Útlendingastofnunar sem ber titilinn Tölum um fólk á flótta, talsverða athygli. Á vefnum má finna málsvörn fyrir störf Útlendingastofnunar á einföldu máli. Yfirlýstur tilgangur verksins er að hjálpa fullorðnum að svara spurningum barna sem horfa á jóladagatal RÚV í ár. Ein sögupersóna jóladagatalsins heitir Fatíma en hún er umsækjandi um alþjóðlega vernd og er ofsótt af Útlendingastofnun í þáttunum. Fyrir utan það hversu vanhugsað og undarlegt útspil stofnunarinnar er — hver í alvörunni er að fara að lesa þetta upp fyrir börnin sín? — þá er margt við útskýringar stofnunarinnar gagnrýnivert. Í útskýringunum segir að Útlendingastofnun sé bara að fylgja lögum sem gildi jafnt fyrir alla, eins og hún sjái sig tilneydda til að vísa fólki af landi brott þrátt fyrir að vilja endilega heimila því að vera hér á landi. Samkvæmt þessum útskýringum eru brottvísanirnar á ábyrgð þingmanna, þeirra sem semja lögin en ekki þeirra sem framfylgja þeim. Fyrir þau okkar sem vita betur og þekkja lög um útlendinga vel er þetta grátbroslegur snúningur á raunveruleikanum þegar litið er til allra þeirra sérstöku og matskenndu heimilda og ákvæða sem stjórnsýslunni er mögulegt að beita til þess að komast hjá því að vísa fólki af landi brott. Hér er Útlendingastofnun svo gott sem að reyna að gaslýsa börnin. Ítrekað hefur löggjafinn reynt að lagfæra þá framkvæmd og tryggja mannúð í málaflokknum. Þá eru ótalin þau skipti sem löggjafinn hefur séð þörf á að beinlínis grípa inn í framkvæmdina með bráðabirgðalögum líkt og er að gerast núna eina ferðina enn í breytingartillögum meiri hlutans við þeirra eigið frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu. Er það góð nýting á almannafé að starfsmaður Útlendingastofnunar sé í fullri vinnu við að horfa á jóladagatal RÚV til að geta útskýrt m.a., með leyfi forseta, að „í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“ heldur sé þetta allt í rauninni vonda Alþingi að kenna?