Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[15:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mér hljóp kapp í kinn áðan þegar við vorum að greiða atkvæði um eingreiðsluna til annarra tryggingaþega. Við erum að greiða hér atkvæði um þriðju breytingartillögu mína og Flokks fólksins um að greiða eldri borgurum, sem búa við bágust kjörin, eingreiðslu í desember. Þetta eru 2.080 einstaklingar, þar af 1.030 sem voru öryrkjar og eru í dag orðnir ellilífeyrisþegar og hafa misst sína aldurstengdu örorkuuppbót. Þetta eru þeir einstaklingar sem búa við bágustu kjörin. Þetta eru þeir einstaklingar sem ég hefði haldið að við ættum öll að sýna metnað í að taka utan um og hjálpa. En það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni hvernig hv. meiri hluti lítur á þetta mál. Ég segi já.