Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[15:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Þessi tillaga mín felur það í sér að við séum ekki að samþykkja 5.981 milljón króna til að kaupa í glæsihöllinni niðri á Austurbakka, nýju Landsbankabyggingunni. Ég velti því fyrir mér alvarlega, þegar er talað um að séu ekki til fjármunir til að styðja við þá sem bágast standa, hvernig í ósköpunum við erum að forgangsraða fjármunum. Þetta eru tæpir 6 milljarðar kr. sem liggja hér undir. Ég man ekki betur, þegar ég sat í forsætisnefnd og við vorum að teikna upp hvernig við ættum að fjármagna og hvernig við gætum byggt viðbygginguna við Alþingishúsið, en að það hefði alveg þótt nóg um þegar upphæðin var að nálgast 5 milljarða. Við erum að tala um upphæð sem er hærri en það sem kostaði að byggja nýja viðbyggingu. Við erum að tala um upphæð sem gæti hjálpað tugþúsundum einstaklinga í sárri neyð. Ég segi já við breytingartillögu minni.